Tannpína

Eins og þið flest vitið er ég ekki manneskja sem hoppar til tannlæknis þegar ég fer að finna eitthvað til... heldur bít ég á jaxlinn og vona að þetta sjatni nú...

Það er nú ekki vænlegt... Ég er búin að vera að finna fyrir einhverjum þrýstingi í vikunni sem ég hef reynt að leiða hjá mér og kennt þessu endalausa kvefi mínu um... Þetta eyðilagði heldur betur fyrir mér því á laugardaginn fór mér að versna... og á laugardagskvöldinu vorum við á árshátíð OK og ég þurfti að fara snemma heim vegna verkja... á sunnudagsmorgninum vaknaði ég svo kl 7. 40 við helv... tannpínuna sem hefði svo sem verið í lagi á venjulegum sunnudagsmorgni... en þennan sunnudagsmorgun var Hulda í pössun og því engin þörf á að vakna svona snemma...

 Í hádeginu í dag fór ég svo til tannlæknis... Það tók hann 40 mín að deyfa mig... og svo boraði hann... og þegar hann kom að rótinni var víst farið að grafa all svakalega þarna... þannig að núna er ég á pensilíni með opna tönn. Hann ætlar að lappa betur upp á þetta þegar sýklalyfið er búið að taka til þarna...

Oh þetta er það skemmtilegasta sem ég geri...Undecided

Annars var árshátíðin fín... hún var haldin á Hallveigarstígnum og Logi Bergmann var veislustjóri... Hann var bara nokkuð skemmtilegur en gerði, að mér fannst, of mikið í því að vera casual... virkaði stundum eins og hann nennti þessu ekki...

Maturinn þarna var geggjaður... humar og lambafille og svo súkkulaðikaka í desert... geðveikt... við Bjössi uppgötvuðum líka að á barnum flaut allt í mojito...og svei mér ef það læknar ekki bara aðeins tannpínu FootinMouth

 Í volæðinu í gær pikkaði ég svo inn 125 kannanir... sem verður nú að teljast nokkuð gott þar sem fyrra met á einum degi var 50 kannanir... og í augnablikinu er ég búin... Grin en mér skilst að ég geti fengið meira þegar ég vil... sem er svo sem ágætt fyrst ég er að minnka við mig hérna í Kringlunni.

jæja... nóg í bili...

Gunna  tannálfur

 


fallin...

jæja... ég er sennilega fallin í bloggáskoruninni...

Varð eitthvað svo lasin um daginn... og svo varð svo mikið að gera hjá mér í vinnunum... og svo þurfti ég að undirbúa afmæli... ég á nóg af afsökunum fyrir ykkur ;)

En nóg um það!

Litla skottið mitt varð tveggja ára á mánudaginn... Þessi engill... Ég er búin að vera í nostalgíu undanfarna daga... reynandi að muna hvern einasta verk og pílu sem ég fann fyrir við að koma henni í þennan heim... og í minningunni var þetta allt saman svo yndislegt... já... maður er fljótur að gleyma...

Við héldum tvær afmælisveislur fyrir dömuna, þá fyrri á sunnudeginum fyrir vini... Þar mættu 6 kríli á Huldu aldri og svo nokkur eldri. Það var mjög þægileg veisla og krakkarnir duglegir að leika sér og passa hvort annað. Ég bakaði skúffuköku sem Hulda hjálpaði mér svo að skreyta. Hún var með grænu kremi og Dodda fígúrum.

Seinni veislan var að kvöldi afmælisdagsins. Þá buðum við skyldmennum í kjúklingasúpu ala mömmu og desert ala ömmu. Það fór líka allt saman vel fram þó svo það sé ólíkt þægilegra að halda veislur þegar maður hefur ekki mætt í vinnu fyrripart dags heldur eytt deginum í undirbúning.

Skvísan fékk helling af pökkum... og er í skýjunum með þetta allt saman. Við foreldrarnir gáfum henni stóra stelpu rúm sem ég skreytti með veggmyndum af Dodda. Það er voðalegt sport að sofa í Doddarúminu... við mynduðum hana í bak og fyrir þegar hún var sofnuð að kvöldi afmælisdagsins... þarf að fara að blogga úr tölvunni heima svo ég geti sett eitthvað af þessum myndum hingað inn....

Annars er loksins búið að ráða fyrir mig hérna í Kringlunni... Þannig að næsta vika er síðasta vikan mín á vöktum hérna... hún verður líka þokkalega þægileg þar sem ég verð með starfsmann í þjálfun og get skroppið á klósettið þegar ég þarf oþh :) Já það eru sannarlega fríðindi að komast á klósettið ;)

jæja nóg í bili...

blogga kannski aftur seinna ;)


að selja eða ekki selja Siv

Við erum búin að vera að spá í að selja litla græna gullmolann okkar hana Siv. Ástæðan fyrir því er svona helst að bílar eru ekkert sérlega góð fjárfesting og við eigum hana skuldlaust.

Við erum búin að spá mikið í þessu.... og kannski helst hvernig bíl við myndum fá okkur seldum við demantinn okkar... við fengum tilboð í gær sem við hálfpartinn tókum... en svo keyrði ég í vinnuna í morgun og sá að þetta var bara ekki hægt... það væri eins og að selja fjölskyldumeðlim að selja Siv. Ég hringdi í Bjössa miður mín og hann var nú eiginlega sammála mér...

 Spurning hvað við gerum... það er hættulegt að bindast bílum tilfinningaböndum Blush


Myndir myndir myndir

Ég var að fara í gegnum stafrænu myndirnar frá því Hulda fæddist í gærkvöldi. Við hjónin höfum nefnilega hugsað okkur að notfæra okkur tilboðið hjá Hans Petersen, 100 myndir á 2500. Ég valdi slatta af myndum og er komin fram yfir brúðkaupið okkar... það urðu 508 myndir í fyrstu umferð.

Við þessa aðgerð verður maður pínu pirraður út í sjálfan sig fyrir að hafa ekki drattast til að framkalla fyrr... en á móti verður maður líka uppfullur af skemmtilegum minningum... Ég veit bara ekki hversu oft Bjössi sagði... ohh hún er svo sæt... Það er alveg á hreinu, við eigum fallegustu og klárustu dóttur í öllum heiminum.

Annað sem ég tók eftir var að myndunum fer svona smátt og smátt fækkandi eftir því sem prinsessan eldist... Fyrsta mappan hét dagur eitt, svo kom dagur 2, og svo vika 1 og vika 2. Svo varð þetta flokkað eftir mánuðum... og síðasti skammturinn sem ég tæmdi af vélinni hét haust 2007. Skandall alveg!!!

Ég set kannski myndir af skvísunni inn við tækifæri til að sýna ykkur hvað hún er frábær, klár og æðisleg Tounge


Ni gakki gögu

Við Hulda Sóley bökuðum í fyrsta skipti saman í gær. Þetta átti að vera tilraunabakstur fyrir afmælið hennar þar sem sykri var skipt út fyrir eplamauk. Við mæðgur settum á okkur svuntur og hafist var handa við að stappa banana og vigta þurrefnin. Hulda stóð sig mjög vel í þessu öllu saman og sturtaði samviskusamlega hinu og þessu út í deigið. Við vorum að baka bananamúffur með kryddkökustíl og var hún rosalega ánægð með það að mega setja út í svo til allar tegundir af bökunarkryddi sem hún fann í skúffunni. Hún ætlaði hins vegar ekki að skilja það að muffinsformin, sem mamma sagði að ættu að nota fyrir kökuna, mættu ekki fara út í deigið... og þurfti ég trekk í trekk að týna þau upp úr.

Þegar deigið var komið saman og búið að taka myndir smelltum við þessu í sameiningu í muffinsformin og svo inn í ofn. Hulda þurfti aðeins að smakka deigið við þetta en fannst það greinilega ekki gott því hún bað mömmu um að þvo tunguna á eftir. Kökurnar fóru í ofninn og svakalega góð lykt barst um allt húsið. Þegar þær komu úr ofninum harðneitaði daman hins vegar að smakka afraksturinn... og þegar henni var boðin kaka í eftirrétt eftir kvöldmatinn sagði hún ni gakki gögu (nei takk köku Blush )  Og þessi orð vaknaði hún með á vörunum í morgun.... ni gakki gögu mamma... ekki makka... (ekki smakka) Ég er nú svolítið sár... því þetta voru nú ágætis kökur, þó svo þær minntu kannski meira á brauð vegna lítils sykurinnihalds. Markmiðið mitt í dag er að fá dömuna til að smakka... nú er bara að sjá hvor er þrjóskari... gæti verið að ég gefi mig þar sem það er nú kannski ekki alveg eðlilegt að neyða börn til kökuáts Tounge

Ef mér tekst ekki að fá hana til að smakka þarf ég kannski að endurskoða kökulistann fyrir afmælið... það er eiginlega ekki hægt að afmælisbarnið segi bara ni gakki göku á afmælinu sínu Wink

 


Heimsóknarhelgin mikla...

Við fjölskyldan höfum verið að taka því frekar rólega undanfarnar helgar. Við höfum bæði verið að vinna frekar mikið og svo bara almenn þreyta og framtaksleysi ráðið ríkjum.

Það er hins vegar ekki hægt að segja hið sama með þessa helgi.

Á laugardagsmorguninn fengum við Lilju og Árna í heimsókn og svo Sigga, Guðrúnu og Signýju Ylfu í kvöldmat. Á milli þeirra heimsókna skutumst við yst á Seltjarnarnesið og heimsóttum Tryggva, Ástu og börn. Skvísan lék á alls oddi og tók sérstakan hringdans þegar hún sá Signýju frænku sína.

Á sunnudaginn fórum við svo út í rigningunni og gáfum öndunum, gæsunum, svönunum og veiðibjöllunum brauð. Var fiðurfénaðurinn óvenju hungraður og greinilegt að fólk er ekki mikið að gera sér ferð til þeirra í rigningu og roki. Eftir Huldulúr fórum við svo í tveggja ára afmæli til Kristnýjar Elnu. Það var voða gaman og mikið gott að borða Whistling

 Nú þarf maður bara að fara að undirbúa afmælið hennar Huldu!!! Ég fékk nokkrar hugmyndir að veitingum í veislunni um helgina. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að krílið mitt sé að verða tveggja ára... mér finnst svo ótrúlega stutt síðan hún fæddist en samt eins og ég hafi ALLTAF átt hana!

Svo eiga Árni Þór og Eddi bróðir afmæli á sunnudaginn... spurning hvort það verði einhver veisluhöld um helgina!

Spurning...


Daginn í dag... daginn í dag...

Jahérna hér... jahérna hér... Ég er nú svolítið hissa... gott hissa... Heimurinn er kannski ekki svo slæmur eftir allt... Villi greyið fallinn og Dagur orðinn borgarstjóri.

Það er nú svolítið fyndið að eitt það síðasta sem Villi greyið gerði var að taka á móti Yoko og Friðarsúlunni.

En þó svo að ég sé nú nokkuð ánægð með þessi borgarstjóraskipti svona pólítískt séð verð ég nú að segja að Dagur er nú líka töluvert myndarlegri... Eitt það besta við að hafa Þórólf sem borgarstjóra var nefnilega hvað hann var myndarlegur Happy Nú er bara spurning hvaða myndarlega mann við eigum að fá sem forseta þegar Óli kallinn hættir...

Einhverjar hugmyndir? Ætli Bjössi verði orðinn 35 þegar næstu forsetakostningar verði? Joyful Er það ekki annar aldurstakmarkið?

Gaman að þessu...


Bloggáskorunin...

Jæja... Árni Þór hefur tekið áskoruninni minni um meira blogg... og höfum við ákveðið okkar á milli að blogga tvisvar í viku. Videó- og myndablogg teljast ekki með og one-linerar eru bannaðir. Við höfum ekki ákveðið refsingu ef annað okkar skorast undan áskoruninni... en allar hugmyndir eru vel þegnar.

Þið getið fylgst með blogginu hans Árna á www.leedsarinn.com.

Við Bjössi og Hulda skruppum í Ikea á sunnudaginn og versluðum aðeins fyrir brúðargjafapeningana okkar. Við fengum okkur kommóðu og ljósakrónu yfir eldhúsborðið, því síðan við fengum okkur stærra eldhúsborð hefur Hulda Sóley borðað í myrkri. Það er hins vegar búið að taka tímann sinn að koma þessum hlutum upp... Þegar Bjössi byrjaði að púsla saman kommóðunni kom í ljós að önnur hliðin á henni var marin. Var því ljóst að við þurftum að fara aðra ferð í Ikea og ákváðum við nú að tékka á ljósakrónunni fyrst til að þurfa þá ekki að fara aðra ferð í Ikea væri hún gölluð... og jú... það var sprunga í skerminum. Við fórum því í agalega langa skilað og skipt röð eftir vinnu í gær. Gengum út með nýja varahluti í græjurnar okkar og Bjössi hélt áfram að púsla. Þegar kom að því að setja skúffurnar í kommóðuna kom í ljós að ein skúffubrautin var eitthvað gölluð og skúffan því stíf og skökk. Einnig kom í ljós að eitt járnið á ljósakrónunni var illa beyglað. Þannig að jú... Bjössi fór aftur í Ikea í dag. Þá hafði ljósakrónan sem notuð var í varahluti í gær verið send í eitthvað galla-vöru-ferli og þurfti því að opna nýjan kassa fyrir þetta stykki. Ég veit ekki hvort þurfti líka að opna nýja kommóðu en hlutirnir eru amk komnir saman núna...

 Mér finnst þetta svo agalega algengt... að maður fái gallaða vöru í Ikea... Ekki er þetta nú ódýrt fyrir þá að þurfa alltaf að bæta gölluðu vörurnar með því að opna nýjar vörur... væri ekki bara ódýrara fyrir þá að hafa aðeins betra gæðaeftirlit og þurfa ekki að standa í þessari vitleysu?

 Jæja... er þetta ekki orðið löglegt blogg? Yfir til þín Árni Wink

Gunns

 


Það er að koma árið 2008!!!

Mikið rosalega líður tíminn hratt. Það var mánudagur í gær og í dag er kominn laugardagur. Tíminn flýgur áfram og kannski vissara að fara að panta pláss á elliheimili!!! Eða amk að fara að huga að sal undir ferminguna hennar Huldu.

Ég fékk smá sjokk í fyrradag þegar ég var að stimpla "rauða kortið" fyrir viðskiptavin og á því stóð 3. janúar 2007. Það merkir það að það eru innan við 3 mánuðir í árið 2008!!! Þegar maður var yngri sá maður fyrir sér að árið 2010 væru hér ekkert nema vélmenni og að bílarnir myndu keyra um í loftinu... alveg eins og sýnt var í bíómyndunum... ég er hins vegar ekki alveg að sjá það fyrir mér núna... Núna er það meira svona 2050!

Það ótrúlegasta er eiginlega að tíminn virðist líða svona hratt án þess að ég eldist nokkuð... Mér finnst ég ekkert hafa breyst frá því ég byrjaði í HR fyrir tæplega 10 árum, þá rúmlega tvítug. Ég man hins vegar hvað mér fannst þær í bekknum mínum sem voru um þrítugt miklar konur, komnar með mann og börn, eitthvað sem mér fannst ótrúlega fjarri... en nú er ég komin í sama pakkann... á leið í háskólann, komin með mann og ban... án þess að hafa í raun elst nokkuð... að mér finnst... Kissing

 Skrítið ekki satt?


Hvað varð um allt bloggið?

Munið þið í gamladaga? Þegar allir blogguðu oft í viku... og flestir alla virka daga? Maður gat setið í tölvunni tímunum saman og forvitnast um vinina... var inní öllu slúðri og já... bara öllu... maður átti sér blogghring sem maður fór í gegnum einu sinni á dag og hafði áhyggjur ef einhver uppfærði ekki bloggið sitt reglulega... Munið þið?

En hvað gerðist? Langflestir eru hættir að blogga (þar á meðal ég) og þeir fáu sem enn blogga gera það sjaldan. Afhverju er þetta? Erum við bara búin að segja allt sem þarf að segja?

 Ég ákvað að taka mig til og fá mér nýtt blogg... stefnan er að vera dugleg og blogga amk 2svar í viku... viljið þið koma með mér í bloggátak? Jafnvel þó svo það merki að við höfum ekki eins mikið að segja næst þegar við hittumst? Wink

Að lokum smá slúður... það lítur bara út fyrir það að ég sé að fara í skólann eftir áramót... Kominn tími til að hysja upp um sig buxurnar og klára þetta nám. Ég þarf að sitja tvo áfanga sem bætt hefur verið við kennsluskránna síðan ég var í náminu... annar þeirra er mjög spennandi, markaðs- og viðskiptarannsóknir... hinn er ekki eins spennandi, fjármál II. Tvær lægstu einkunnirnar mínar liggja í fjármálunum... þannig að ég þarf að taka á því... en ég treysti því að tengsl mín við áhrifamikla menn í fjármálaheiminum muni koma mér í gegnum þetta LoL Planið er að taka svo tvo áfanga í stjórnun, Mannauðsstjórnun og eitthvað annað skemmtilegt, skrifa svo Bs verkefni á sumarönn og ljúka viðskiptafræðinni með áherslu á stjórnun í lok sumars... gott plan?

Ef einhver veit um einhverja skemmtilega vinnu handa mér þar til ég byrja í skólanum í janúar má hann endilega láta mig vita!

Munið svo að blogga meira svo mér leiðist ekki!!!

baráttukveðjur

Spennta skólastelpan


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband